JÓKA TRÖLLSKESSA – SÖGUMAÐUR

Velkomin í Jókulund. Hún Jóka var sko engin venjuleg tröllskessa. Hún var ekkert hættuleg og það er henni að þakka að við getum horft alla daga á Akrafjallið fallega. Eigum við að rifja upp söguna? 

Einu sinni fyrir langa, langa, langalöngu bjó tröllkerling á Snæfellsnesi sem hét Jóka. Eins og allir vita eru mörg og fögur fjöll á Snæfellsnesi en Jóku fannst þau ekki nærri eins falleg og fjall nokkurt sem hún hafði séð á Suðurlandi. Jóku fannst sunnlenska fjallið bera af öllum öðrum fjöllum og helst af öllu vildi hún fá að eiga það. Hún hugsaði varla um annað en fjallið sitt fyrir sunnan. Hún hugsaði svo mikið um það að hún varð pirruð og eirðarlaus. Dag einn ákvað hún að snúa hamingjunni sér í hag. Hún stikaði af stað og lét ekki staðar numið fyrr en hún var komin að fjallinu sínu fagra. Hún horfði á það í dálitla stund og snaraði því svo á bakið og hélt af stað heim á leið. Heimferðin sóttist henni seint enda var fjallið þungt, mjög þungt og þegar hún var komin að nesi sem heitir Akranes fór að birta af degi. Hún hafði ekki áttað sig á hvað tímanum leið og þegar sólin reis brá henni svo mikið að hún skellti fjallinu niður þar sem hún stóð. Fjallið brotnaði í öllum látunum og þannig varð til dalur sem heitir Berjadalur. Jóka varð að steini eins og allar tröllkerlingar sem gæta sín ekki á sólinni og eina sem eftir er af henni er bunga í fjallinu sem heitir Jókubunga. 

Þetta var sagan af henni Jóku og Akrafjallinu. Ef þið viljið heyra í uppáhaldshljómsveitinni hennar þá getið þið valið kóða númer 12. Hljómsveitin er skipuð nemendum úr 10. bekk Brekkubæjarskóla og þær, já þetta eru allt stelpur, ætla að leika nokkra vel valda takta undir stjórn Heiðrúnar Hámundar.