JÓLASVEINAR

Eins og allir vita eiga jólasveinarnir heima í Akrafjalli. Í byrjun desember halda þeir að heiman til að vera nær öllum börnunum sem þeir eiga eftir að heimsækja. Auðvitað nenna þeir ekki að hlaupa upp og niður fjallið á hverjum degi og þess vegna eiga þeir líka heimili hér í Garðalundi. Það er mjög mikið að gera hjá þeim í desember og þeim finnst gott að geta komið í skóginn og kastað mæðinni. 

Það er ekki víst að þeir verði heima þegar þið eruð á ferðinni í Garðalundi en þeir skilja alltaf eftir opið. Eins og allir vita þá er Kertasníkir frægur fyrir að safna kertum og nú er hann byrjaður að safna könglum líka. Hann yrði mjög glaður ef þið vilduð bæta nokkrum í könglasafnið hans.